148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

frumvarp um persónuvernd.

[14:06]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég vek athygli þingheims á því að þetta frumvarp hefur legið inni á samráðsgáttinni frá því í janúar. Menn hafa því getað kynnt sér efni þess þar. Ég vil líka vekja athygli hv. þingmanns á því, sem ég veit að hann þekkir vel, að frumvarp til innleiðingar á gerð Evrópusambandsins verður alla jafna ekki lagt fyrir Alþingi fyrr en gerðin sjálf hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Það gerist á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Málið hefur ekki verið á dagskrá hennar hingað til. Þar hefur m.a. strandað á Evrópusambandinu sjálfu, framkvæmdastjórninni. Það hefur ekki verið dráttur af hálfu Íslands í þeim efnum. Síðustu vendingar í málinu eru þær að einhver dráttur kunni að verða á því áfram af hálfu annarra EFTA-ríkja. Það er þannig ekki á forræði Íslendinga að reka málið þar áfram.

En ég er alveg sammála hv. þingmanni um að einnar stoðar kerfi er alla jafna ekki boðleg innleiðing við innleiðingu á gerðum Evrópusambandsins. Enda héldum við sjónarmiðum okkar (Forseti hringir.) Íslendinga um fullveldi og tveggja stoða kerfið mjög á lofti í þessari vinnu og fengum það á endanum skjalfest.