148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

neyðarvistun ungra fíkla.

[14:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hvað ætlum við að gera í dag? Já, ég varð fyrir vonbrigðum, ég verð bara að viðurkenna það. Og verð að segja að ég varð líka fyrir vonbrigðum með að hæstv. ráðherra skyldi einhvern veginn láta í það skína að þetta væri sérstakt gæluáhugamál þingmannsins. Auðvitað verður maður fyrir vonbrigðum þegar ekki eru skýrari svör en svo að mögulega eigi að fara að setjast niður og íhuga hvernig eigi að bregðast við.

Í 15 skipti þurftu börn í verulegri neyð að hverfa frá BUGL, frá neyðarvistuninni, bara í mars. Þetta eru krakkar í svo mikilli neyð að við getum ekki látið þetta fara í langt samráðsferli. Með fullri virðingu fyrir samráðsferli, þarf að bregðast við núna. Það þarf að gera eitthvað þannig að ekki sé verið að vísa börnum, sem koma með lögreglu- eða sjúkrabíl inn á neyðarvistunina, í burtu og vista þau í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Afsakaðu, hæstv. ráðherra, ég hef af þessu áhyggjur.