148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

frumvarp um tollkvóta á osta.

[14:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Í síðustu viku hvatti ég hæstv. forseta til að gæta þess að skapa rými fyrir frumvarp frá ríkisstjórninni um það að laga klúður sem varð á síðasta ári varðandi tollfrjálsa kvóta sérosta. Enn bólar ekkert á frumvarpi frá ríkisstjórninni. Mér skilst að frumvarpið sé fast inni í einhverjum af Framsóknarflokkunum í ríkisstjórninni. Það skiptir núna máli að við höfum hugfast að það er verið að hlunnfara neytendur. Þetta er risahagsmunamál, neytendamál. Í stað þess að ríkisstjórnin auglýsti 37 tonn af sérostum 1. maí átti hún að auglýsa 140 tonn. Það er verið að hlunnfara neytendur.

Við í atvinnuveganefnd vorum tilbúin með málið. Við vorum búin að fara yfir það með hagsmunaaðilum og ráðuneytinu, allt tilbúið, en síðan komu fyrirmælin: Ráðherra ætlaði að flytja frumvarpið sjálfur. Fínt. Gott. En það bólar ekkert á frumvarpinu. Það var tekið fram fyrir hendurnar á hv. atvinnuveganefnd undir forystu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur en af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur ekkert gerst í málinu. Hvar er málið fast? Enn og aftur sjáum við að neytendasjónarmið eru sjónarmið sem eru ávallt hornreka hjá (Forseti hringir.) þessari ríkisstjórn. Nú er mál að linni. Ég vil fá málið inn á borð þingsins. Við höfum einn dag til að afgreiða það í þágu neytenda.