148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

frumvarp um tollkvóta á osta.

[14:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég hvet hæstv. forseta eindregið til þess að skapa svigrúm og rými í dagskrá þingsins í dag eða á morgun til að hægt sé að afgreiða þetta mikilvæga neytendamál og fara að vilja Alþingis sem var mjög skýr hér á síðasta þingi. Ég hvet hæstv. forseta til þess.

Ég hvet þá frjálslyndu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru eftir innan þess þingflokks til að láta til sín taka — kannski er ég að ofáætla fjöldann — og reyna að ýta á eftir þessu máli. Þetta er gríðarlega mikilvægt neytendamál. Það er gríðarlega mikilvægt að þingið fylgi eftir eigin vilja. Samkomulag var um þetta í þinginu á sínum tíma. Ég bið hv. þingmenn um að láta ekki hagsmuni neytenda enn og aftur verða hornreka á borðum þessarar ríkisstjórnar.

Ég hvet hv. þingmenn til þess að sýna kjark í þessu máli. Við í stjórnarandstöðunni munum að sjálfsögðu veita svigrúm til þess að ræða þetta mál. Við erum búin (Forseti hringir.) að ræða þetta í atvinnuveganefnd. Það er í raun verið að koma í bakið (Forseti hringir.) á okkur sem sitjum í nefndinni, við héldum að okkur höndum meðan ríkisstjórnin tók málið (Forseti hringir.) til sín. Það er núna verið að svíkja það. Þannig að þetta er alvarlegt. Ég beini þeim ábendingum mínum til hæstv. forseta að taka málið í sínar hendur.