148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[15:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu eins og aðrir. Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum vel formennskutíð okkar í Norðurskautsráðinu sem hefst á næsta ári, 2019. Það er mikilvægt að Ísland skilgreini vel, eins og er reyndar búið að gera og vinna að í nokkurn tíma, þau verkefni sem á að vinna að, en það er líka mikilvægt að það sem eftir stendur verði eitthvað sem við getum horft stolt til þegar fram líða stundir. Ísland verður að skilja eftir sig spor á sviði norðurslóða, spor sem miða að því að gæta hagsmuna norðursins og ekki síst Íslands að sjálfsögðu í því samhengi.

Við vitum að siglingaleiðir um Norður-Íshafið verða nýttar, það er alveg ljóst. Þá skiptir miklu máli að lög og reglur, sáttmálar og samningar, séu þess eðlis að gætt sé vel að öryggi, að umhverfinu og að ekki sé fórnað neinu fyrir þá viðskiptahagsmuni sem þar kunna að vera. En að sjálfsögðu viljum við nýta tækifærin sem gefast.

Hagsmunir Íslands eru gríðarlegir eins og við vitum, bæði hvað varðar ógnir og tækifæri. Við þurfum og eigum að hafa áhyggjur af því að það verði t.d. umhverfisslys á norðurslóðum, við eigum að hafa áhyggjur af hlýnuninni, bráðnun íssins, vegna þess að allt þetta hefur bein áhrif á efnahag okkar og lífsskilyrði hér við landið, hvort sem það er veðurlega, út af fiskveiðum eða öðru slíku.

Við eigum að sjálfsögðu að nýta tækifærin ef þau gefast eins og ég sagði áðan, en við þurfum að hafa hins vegar umhverfismálin í forgangi, það er alveg ljóst.

Við eigum líka að beita okkur mjög ákveðið fyrir því og setja það ofarlega á blað að verja og bæta hagsmuni frumbyggja á norðurslóðum og sér í lagi á þeirra forsendum. Við eigum ekki að ýta einhverju að þeim sem þeir vilja ekki. Við eigum hins vegar að fræða og kynna og hjálpa þeim ef við mögulega getum.

Ég vil líka að endingu, forseti, nefna hér hringborð norðurslóða, Arctic Circle, sem er gríðarlega mikilvægt og hefur hjálpað mjög við að draga athyglina að vandamálunum á þessu svæði og í raun setja kastljós á Ísland líka.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að fjárveitingar t.d. til Háskólans á Akureyri verði auknar og bættar í ljósi þessarar áherslu á norðrið. Einnig hvort ráðherra hafi beitt sér eða haft skoðanir á orðum bandaríkjastjórnar (Forseti hringir.) þegar kemur að norðurskautinu.