148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[15:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Til viðbótar við þau umhverfisvandamál sem blasa við okkur hér á norðurslóðum — þau eru tvímælalaust mikilvæg og mikilvægust því að það er ekki mikið annað sem gerist ef við sinnum þeim ekki — getum við gert ýmislegt annað á meðan sem kemur alla vega ekki í veg fyrir þau markmið sem við viljum ná í þeim málum. Þá nefni ég til dæmis að um er að ræða ákveðna áskorun í stafrænu samfélagi. Fjarlægðir eru mjög miklar á norðurslóðum og þá er stafrænt samfélag sem tengir fólk á öruggan hátt, tryggir samskipti milli fólks, mjög mikilvægt markmið til að stuðla að samvinnu; hvernig við getum líka undirbúið okkur undið fjórðu iðnbyltinguna sem er ekki eitthvað sem veldur hnattrænni hlýnun.

Annars vegar er það síðan ákveðin samfélagsleg ábyrgð atvinnulífs í viðkvæmu umhverfi norðurskautsins, hvernig við getum tryggt öruggt starfsumhverfi sem gengur ekki á náttúruna og hvernig við getum tryggt þátttöku nærsamfélagsins í heimi þar sem alþjóðafyrirtæki vaxa sífellt.

Að lokum er það þessi samfélagslega velferð sem við þurfum að einbeita okkur að líka. Hvernig tryggjum við velferð fólks á norðurskautinu? Hvers konar lausnir og nýsköpun henta þeim aðstæðum sem við búum við? Þá miða ég að ákveðnu velferðarhagkerfi sem byggist meðal annars á sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðunum. Þar er markmiðið að búa til hagkerfi þar sem velferð fólks er höfð að leiðarljósi en ekki endilega skammtímagróði eins og það að brenna olíu í smátíma til að fá aðeins aukapening til að við lendum þá örugglega í þessum hnattrænu vandamálum sem varða loftslagsmálin.

Við þurfum að hugsa lengra. Við þurfum að átta okkur á því að hnattræn hlýnun stoppar ekkert þegar hitastigið á Íslandi er orðið þægilegt fyrir okkur, eins og gamaldags suðurlandaoftslag. Þá getum við ekki bara hætt, það heldur áfram (Gripið fram í.) Eða, eins og ég lýsti áðan, getur snúist upp í andhverfu sína og við endum undir ís eins og við gerðum á síðustu ísöld.