148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

norðurslóðir.

[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda, upphafsmanni þessarar sérstöku umræðu, fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli sem er náttúrlega mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga. Þetta er langtímamál sem við verðum að vinna saman að og það er ánægjulegt að hlusta á ræður þingmanna þvert á flokka, mér finnst þingheimur skynja mikilvægi þessa máls og tækifæri sem felast í þróun norðurslóða, hvernig við högum stjórnsýslunni, skipulagi, rannsóknum og fleira á þessum svæði, en líka það hverju við verðum að vara okkur á og hvernig við undirbyggjum okkur.

Þegar við Íslendingar horfum til norðurslóða er mér hafið hugleikið. Það skiptir máli þegar við ræðum norðurslóðir að við miðlum þeirri þekkingu og virðingu í rauninni, þeirri grunnþekkingu sem við höfum aflað okkur á sviðum er tengjast málefnum hafsins, bæði hvað varðar hafrannsóknir, margvíslegar sjávarrannsóknir og líka það hvernig við höfum m.a. farið í að kortleggja hafsbotninn í kringum Ísland, hvernig við getum stuðlað að því að byggja upp ákveðið skipulag, koma með nálgun varðandi það hvernig við ætlum að byggja upp samvinnu og það samstarf sem snertir norðurslóðir.

Ég tel líka mikilvægt að ríkisstjórnin veiti okkur aðeins innsýn í langtímaplanið. Hér hefur m.a. Landhelgisgæslan verið nefnd sem er mjög brýnt að verði styrkt vegna líklegrar opnunar á norðurslóðum.

Ég tel líka mikilvægt að við fáum að sjá plan um uppbyggingu á rannsóknastofnunum sem tengjast málefnum hafsins, hvort sem er Hafrannsóknastofnunin eða háskólar á Íslandi, sem stuðla að því að við eflum og byggjum upp enn frekari þekkingu okkar á norðurslóðum, öllu sem tengist norðurslóðum, málefnum hafsins og því sem snertir okkar hagsmuni.

Við höfum mikla hagsmuni að vernda. Ég tel mikilvægt að við förum að undirbyggja (Forseti hringir.) hagsmunagæslu okkar með því m.a. að styrkja háskóla- og vísindastarfsemi.