148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það sem skiptir máli hér er stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, kostnaðaráætlun sem fylgir stefnumörkun og sú samfella sem á að vera í ríkisfjármálum þar sem neikvæð staða fyrra árs helst áfram fram á næsta ár eða jákvæð staða. Það er ekki það sem við erum að gera núna í síðustu lokafjárlögum gömlu laganna, að fella niður fjárheimildir eða bæta þeim við til þess að koma út á núlli.

Ég er á þessu nefndaráliti með þeim fyrirvara að við séum bara að taka hálft skref. Mér finnst það hins vegar vera rétt hálft skref. Af einhverjum undarlegum orsökum eru markaðar tekjur færðar úr sérlögum og inn í lög þar sem áfram er sama skilyrði gagnvart þeim þó að þau séu öðruvísi útfærð. Það sem slíkt er bara tæknileg útfærsla. Eftir sem áður er hugmyndafræðin að vissu leyti ákveðnar markaðar tekjur.

Það sem ég hef áhyggjur af, og þess vegna er ég með fyrirvara við málið, er að af því að þessi ákvæði eru áfram inni forðumst við einhvern veginn að taka skrefið til fulls, þ.e. hvað samfelluna varðar, sem lögin um opinber fjármál taka tillit til. Það verður áhugavert að sjá það núna í framhaldinu og næstu lokafjárlögum hvort við notum gömlu aðferðirnar eða ekki. Það kemur kannski ekki í ljós ef þau takmörk sem sett eru eru hærri, þ.e. ef lágmark fjárhæðarinnar er í raun hærra, en það gæti hins vegar gerst ef það er í hina áttina þannig að prósenturnar sem settar eru fram eru hærri en þarf til að fjármagna viðkomandi verkefni.

Það tengist að mínu viti stefnumörkun stjórnvalda og þörfinni á að hafa hana skýra, kostnaðarmetna, til þess að við getum greint mjög vel og skýrt og greinilega í hvað þessir peningar eiga að fara og hvaða markmiðum á að ná með þeim peningum. Eins og er er þetta eiginlega tómur tékki sem við afhendum framkvæmdarvaldinu af því að þau segjast bara þurfa 100 milljónir og við vitum ekki af hverju eða hvað á að koma út úr því. Í rauninni segja þau það varla. Þau segja bara: Í heildina þurfum við milljarð, það er um það bil í þessi verkefni; samt er fullt af öðrum verkefnum sem þarf líka að fara í en við gerum ekki ráð fyrir neinum sérstökum peningum þar eða einu sinni sérstökum aðgerðum. Sem dæmi þarf að fara að endurnýja könnunarskip Hafró, Bjarna Sæmundsson, en enginn peningur er ætlaður í það, það á bara að finna hann einhvers staðar.

Þetta eru stefnumótunarvandræði sem ég held að endurspeglist að lokum í því hálfa skrefi sem við tökum varðandi markaðar tekjur. Ef við værum að afnema þær alveg þyrfti framkvæmdarvaldið að taka meiri ábyrgð á því hvort farið er umfram þær fjárheimildir sem við ætlum að hafa. En af því að við höfum ekki kostnaðaráætlunina getum við heldur ekki summað það upp og verið viss um það eftir á að þau hafi staðið við þær áætlanir sem voru gerðar eða ekki.

Skorturinn eða afleiðingin af þessu gæti verið verri áætlunargerð eða að við klárum verkefnið hraðar. Það er það eina sem ég hef í raun við þetta að athuga. Það stuðlar að betri og nákvæmari áætlanagerð að taka skrefið til fulls. Við fyrirgefum ekki lengur ef fjárheimildir eru annaðhvort of eða van miðað við áætlanir heldur færist það bara yfir á næsta ár. Þá verður fólk að taka þeim hausverk ef það var með lélegar áætlanagerðir og fór inn á næsta ár í mínus. Það er nú allt sem ég hef um málið að segja.