148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil enn og aftur taka undir það sem hv. þingmaður sagði, það er afar mikilvægt að samstaða er í nefndinni um þetta mál. Það er grundvallaratriði í mínum huga. Þetta er stórt og mikið mál, eins og fram hefur komið. Það eru áhyggjur hjá mikilvægum stofnunum; umboðsmanni skuldara, Fjármálaeftirlitinu, og svo framvegis. Af því að ég nefndi Fjármálaeftirlitið er sú hætta fyrir hendi að frumvarpið, verði það að lögum, gæti veikt sjálfstæði eftirlitsins og það gæti orðið pólitískt bitbein, sem má alls ekki verða. Þarna er verið að taka frá því markaðar sértekjur. Ríkissjóður ætlar að veita því fjárveitingar til rekstrarins í staðinn. Sú staða gæti komið upp að þar væru einhverjir ósáttir við starfsemi Fjármálaeftirlitsins og myndu jafnvel draga úr fjárveitingum til þessa mikilvæga málaflokks. Þessar áhyggjur eru mjög svo skiljanlegar og sannarlega réttmætar. Í því ljósi er mjög mikilvægt að komið sé til móts við allar þær áhyggjur og að nefndin sé samstiga um lausnir.

Ég vona svo sannarlega að þær breytingar sem við höfum rætt og nefndin hefur komist að niðurstöðu um muni koma til móts við þessar áhyggjur.