148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

Viðlagatrygging Íslands.

388. mál
[18:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að fara yfir nefndarálit okkar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Mig langaði þó að koma hingað upp og segja: Þetta er kannski eitt af þeim frumvörpum sem láta lítið yfir sér og við töldum í fyrstu að væri býsna einfalt. En við fengum góða jarðfræðikennslu sem gerði að verkum að við gerðum breytingu á fyrirliggjandi frumvarpi. Í ljósi þeirrar umræðu sem varð um frumvarpið sem áður lá fyrir í umræðunni nefni ég að oft fara mál hér í gegn án þess að fólk átti sig alveg á um hvað ræðir. Oft væri hægt að halda langar ræður og hafa skemmtilegri umræðu um slík mál.

Mig langaði líka að koma því á framfæri, sem fram kemur í nefndarálitinu, að kvörtun barst frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um samráðsleysi. Mér er sagt, innan úr Sambandi íslenskra sveitarfélaga, að margir starfshópar hafi komið að væntanlegum breytingum á viðlagatryggingum í langan tíma. En þau telja svo að skort hafi á samráð þegar endanlegt frumvarp kemur inn í þingið.

Ég vil halda til haga að við í þessum sal og ekki síst í Stjórnarráðinu, hjá framkvæmdarvaldinu, sinnum þessu samráði, sem samráðsgáttin á auðvitað að taka á en þetta frumvarp hafði einhverra hluta vegna ekki farið þar inn. Við erum svo oft að fara yfir mál sem er svo í höndum annarra að framfylgja. Þá er ég að tala um hitt stjórnsýslustigið, sveitarstjórnarstigið. Það er mikilvægt að við horfum á málin til enda, höfum samband við sveitarstjórnirnar eða Samband íslenskra sveitarfélaga, og séum meðvituð um endanlega útfærslu þeirra laga sem hér fara í gegn.