148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[18:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög greinargóð svör. Á leið sinni úr ræðustólnum sagðist hann ætla að svara spurningu minni, án þess að ég væri búinn að bera hana upp, um viðbrögð fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem eru listuð hér fremst í nefndarálitinu. Ég var að velta fyrir mér hvort þingmaðurinn teldi þetta svar nægjanlegt.

Ég deili áhyggjum með hv. þm. Birgi Þórarinssyni að það sé eðlilegt og í raun sjálfsagt að taka þetta sérstaklega fram því að þetta eru svo gríðarlega mikilvæg réttindi. Það er hins vegar afar gott ef nefndin er nokkuð sannfærð og ekki síst hv. flutningsmaður þessa nefndarálits. Það er líka gott að nefndin hafi fengið staðfestingu og túlkun frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um að þau réttindi sem þarna er um að ræða séu hólpin, ef nota má það orð.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um það sem fylgst hefur með landbúnaði og stöðu bænda að það er mikilvægt að þau réttindi sem þessi ágæti hópur hefur áunnið sér séu hvergi skert. Nóg hefur svo sem gengið á í gegnum tíðina varðandi þeirra lífeyrissjóðsmál. Ég fagna því ef menn geta staðfest þetta hér enn frekar.