148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[20:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, sem dreift hefur verið á þskj. 749. Verði frumvarpið samþykkt hafa Íslendingar tekið markvert skref í stuðningi við vanþróuðustu ríki heims sem í daglegu tali eru nefnd LDC-ríkin. Með samþykktinni hafa íslensk stjórnvöld staðið við yfirlýsingar sem voru gefnar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Með þeim yfirlýsingum hafa íslensk stjórnvöld tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi sem stefnir að því að stuðla að efnahagslegri farsæld og sjálfbærri þróun þeirra ríkja sem skemmst eru á veg komin í þróun.

LDC-ríkin eiga það sameiginlegt að þar eru tekjur lágar og tekjuöflunarmöguleikar litlir. Þá standa ríkin frammi fyrir verulegum innviða- og skipulagsskorti. Þessi staða gerir það að verkum að ríkin eru í mörgu tilliti ósjálfbær og geta illa tekist á við umhverfis- og efnahagsáföll. LDC-ríkin njóta stuðnings frá alþjóðasamfélaginu, einkum þegar að þróunarmálum og viðskiptum kemur. Sameinuðu þjóðirnar birta lista yfir LDC-ríki en listinn er uppfærður á þriggja ára fresti af efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna. Um þessar mundir eru 47 ríki á listanum en líkur eru á að tvö ríki færist af listanum á næstunni.

Ýmsar vörur sem eru upprunnar í LDC-ríkjum hafa notið verulegra tollfríðinda allt frá miðju ári 2001. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessum vörum verði fjölgað. Verði það samþykkt munu vörur sem falla undir 97% tollskrárnúmera tollskrár í viðauka I við tollalög alfarið undanþegnar tollum. Aðeins eru lagðir á tollar við innflutning vöru sem fellur undir tollskrárnúmer í 1.–24. kafla tollskrár í viðauka I við tollalög. Undir þá kafla falla m.a. lifandi dýr, kjöt, fiskur, mjólkurafurðir, vörur úr jurtaríkinu, unnin matvæli, matjurtir, ávextir o.fl. Þess var gætt sérstaklega við samningu frumvarpsins að vernd þeirra vara sem hvað viðkvæmastar eru í ljósi hagsmuna innlendra framleiðenda landbúnaðarvara verði ekki skert. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að ráðherra verði heimilað að setja með reglugerð sérstakar upprunareglur vegna vöru sem er upprunnin í LDC-ríkjum. Vaninn er að samið sé um upprunareglur í fríverslunarsamningum en þar sem þau tollfríðindi sem hér um ræðir verða veitt einhliða er nauðsynlegt að setja sérstakar reglur um uppruna.

Reglurnar verða í samræmi við efni ráðherraákvörðunar um upprunareglur vegna innflutnings frá LDC-ríkjunum sem var samþykkt á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í tengslum við svokallaðar Nairobi-viðræður í desember 2015. Reglurnar eru einnig sérstakar í þeim skilningi að með þeim er LDC-ríkjunum veitt svigrúm hvað varðar aðvinnslu vöru, uppsöfnun, kröfum um upprunasannanir og framkvæmd sem önnur ríki njóta ekki. Ef tekið er mið af sögulegum innflutningi vöru sem upprunnin er í LDC-ríkjunum má ætla að áhrif samþykktar frumvarpsins verði óveruleg, hvort sem litið er til áhrifa á almannahagsmuni, á helstu hagsmunaaðila eða á stjórnsýslu ríkisins. Miðað við innflutning og álagða tolla 2015–2017 má ætla að áhrif tillögunnar á ríkissjóð vegna lægri tolltekna verði neikvæð um 3,5 millj. kr. á ári. Til þess ber þó að líta að það telst óverulegt miðað við íslenskar aðstæður, en getur verið efni í stórmál í LDC-ríkjunum.

Frumvarpið er samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Við gerð þess var haft náið samráð við skrifstofu matvæla og landbúnaðar í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og embætti tollstjóra. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að 1. umr. lokinni.