148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nei, ég kom að því í minni stuttu ræðu að það hefur einmitt verið eitt af meginvandamálum þessara ríkja þessi tvískinnungur sem Vesturlönd sér í lagi hafa sýnt í þessum efnum, að vera að veita þróunaraðstoð, innan gæsalappa, með því að gefa niðurgreiddar landbúnaðarafurðir eða selja á mjög lágu verði inn á þessa markaði og grafa undan matvælaframleiðslu heima fyrir. Það er mjög óeðlilegt. Þarna er verið að neyta aflsmunar, ef svo mætti orða það. Þarna eru þá auðug ríki, sem byggja afkomu sína að óverulegu leyti á framleiðslu landbúnaðarafurða, að grafa undan jafnvel lykilatvinnugreinum viðkomandi ríkja á þann hátt. Það er mjög alvarlegt. Það horfir hins vegar til breyttra viðhorfa í þessum efnum og því fagna ég þessu frumvarpi sérstaklega. Það er einmitt í þeim anda að snúa þessu tafli við og opna frekar markaðsaðgang fyrir þessi ríki inn á okkar markaði þar sem býr fólk með mun meiri kaupmátt og reiðubúið oft að greiða talsvert hærra verð fyrir þessar afurðir, ef þær eru þá ekki tollaðar í drep. Þess vegna er svo mikilvægt að veita þennan tollfrjálsa aðgang inn á okkar markað og aðra vestræna markaði, til þess að skapa þessum ríkjum tækifæri til framtíðar og láta af þessu háttalagi, að vera að selja verulega niðurgreiddar landbúnaðarafurðir á mjög lágu verði til þessara sömu ríkja eða jafnvel, eins og tíðkaðist lengi vel og að einhverju leyti enn, að veita matvæli sem þróunaraðstoð til lengri tíma litið. Við eigum að byggja upp matvælaframleiðslu í löndunum en ekki nota þau sem svæði til að afsetja okkar niðurgreiddu afurðir.