148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:18]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna. Ég hlustaði á ræður annarra þingmanna á undan og eins framsögu ráðherrans sem ég þakka fyrir. Ég er bara að átta mig á því út á hvað þetta frumvarp gengur og er frekar blautur á bak við eyrun í þeim efnum, en það er mjög áhugavert að hlusta á þetta og það vekur hlýju í brjósti að kynna sér málið.

Ég heyrði í andsvörum áðan að þingmenn voru að velta fyrir sér hvað Ísland gæti gert í þessum málum. Eins og fram kom í ræðu þingmannsins hafa á síðustu 18 árum einungis sex þjóðir komist út úr þessari skammstöfun, LDC. Mig langar að spyrja þingmanninn: Hefur hann einhver ráð undir rifi sínu með það hvað Ísland gæti gert? Ég heyrði sagt áðan að við gætum boðið þessum ríkjum bein viðskipti, eitthvað slíkt, og sett okkur í samband við þau. Það væri þá skref í rétta átt. Hefur þingmaðurinn einhverja skoðun á þessari spurningu eða svar við henni?