148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef nú aldrei haft grun um að hv. þingmaður væri sósíaldemókrati. Það er mjög upplýsandi og áhugavert. Ég reyni að koma því inn í það kerfi sem ég er að reyna að móta varðandi Pírata. [Hlátur í þingsal.]

Ég heyrði ekki svar við spurningunni um vinnumarkaðinn. Kannski kemur það í næsta svari. Ég vildi þó bæta við spurningu út frá fyrirvörum hv. þingmanns um einhliða eftirgjöf tolla. Þar lýsti þingmaðurinn því að mótvægisaðgerðir gætu þurft að koma til, til að mynda aukinn stuðningur, styrkir til matvælaframleiðslu innan lands á Íslandi. En væri það ekki í raun niðurgreiðsla matvælaframleiðslu í útlöndum? Ef við ætlum að opna fyrir að menn hrúgi umframframleiðslu frá erlendum iðnbúum inn á íslenska markaðinn og bæta upp fyrir það með því að styrkja sérstaklega íslenska bændur, umfram það að (Forseti hringir.) standa undir framleiðslunni, erum við þá ekki bara að styrkja erlendu verksmiðjubúin?