148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er von að maður velti þessu fyrir sér þegar ljóst er að mínu viti að ekkert í málinu kallar á — ég er nú búinn að renna yfir þetta aftur — að þetta verði samþykkt akkúrat núna. Það verður þá að hafa það þannig og nefndin mun væntanlega fara í einhvers konar samráð eða óska eftir umsögnum um málið. En það er svolítið sérstakt að ekki sé hægt að virða þau lög og reglur og þær leikreglur sem ríkið hefur sett sér varðandi gerð mála sem þessara.

Aðeins að öðru fyrst ég er kominn hingað. Ég velti fyrir mér því sem ég kom inn á í fyrri ræðu minni varðandi upplýsingagjöf til neytenda. Ég nefndi það áðan að neytendur væru ekki í mikilli vissu þegar þeir fara út í búð og kaupa sér einhverjar vörur. Ég held að hægt væri að gera betur í að upplýsa neytendur um innihald vöru o.s.frv. Það má líka velta fyrir sér hvort taka eigi upp svokallað umferðarljósakerfi þar sem kemur fram á vörunum hollusta og innihald og þess háttar, þetta er svona græn, gul og rauð merking, býsna sniðug.

Mig langar aðeins að spyrja þingmanninn út í það hvort hann deili þeirri skoðun með mér — nú vandast málið því að við erum í sama flokki — að það sé alls ekki verið að hefta innflutning eða standa í veg fyrir innflutningi með því að auka upplýsingagjöf til neytenda. Að með því að auka upplýsingagjöfina er einfaldlega verið að auka val neytenda, þ.e. neytendur geti staðið við kjötborð eða grænmetisborð einhvers staðar og sagt: Ég ætla að velja grænmeti eða kjöt eða eitthvað slíkt sem er framleitt á vistvænan hátt með svo og svo lítilli eiturefnanotkun og litlu lyfjainnihaldi. Er það ekki bara það sem við viljum að (Forseti hringir.) við getum öll gert?