148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var sammála mati hv. þingmanns, en get samt ekki stillt mig um, vegna þess að hv. þingmaður nefndi leynisamninginn sem fyrrverandi landbúnaðarráðherra gerði um tollamál, að koma með fyrirspurn til hv. þingmanns. Eins og hann lýsti þessum samningi — og ég tek það fram, ítreka það, virðulegur forseti, að ég er sammála þeirri lýsingu, því mati — verður manni hugsað til þess sem við ræddum fyrr í þessari umræðu, um hættuna sem getur skapast gagnvart þróunarríkjum þegar stærri ríki, þróuð lönd með verksmiðjuframleiðslu landbúnaðarvara hrúga inn á markaðinn umframframleiðslu sinni fyrir lítið og í sumum tilvikum ekkert. Í sumum tilvikum er þetta kallað þróunaraðstoð en getur haft þau áhrif að rústa heimaframleiðslunni, getur skaffað ódýrar landbúnaðarvörur, ódýr matvæli í skamman tíma. En hver er afleiðingin? Heimaframleiðslan eyðileggst. Og skaðinn fyrir samfélagið allt verður gríðarlegur.

Maður verður að velta því fyrir sér hvort Ísland, þetta þróaða land og svo sannarlega ekki fátækt, geti orðið fyrir sambærilegum áhrifum hvað þetta varðar. Auðvitað eru aðstæður allt aðrar. En er hættan sú, ef við hugsum ekki um það að samningar um tollamál séu gagnkvæmir og menn sáttir báðum megin, að umframframleiðsla úr verksmiðjum, úr sterabúum í útlöndum, geti valdið varanlegum og verulegum skaða á íslenskri matvælaframleiðslu?