148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að ræða um óhreinu börnin hennar Evu sem eru frumkvöðlar, fagfólk í heilbrigðiskerfinu sem hefur í áratugi gegnt mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfinu okkar og vill gjarnan gera það áfram án þess að verða endilega opinberir starfsmenn. Það er nokkuð dapurlegt að fylgjast með vegferð stjórnvalda og framgöngu þeirra. Það er ekki verið að uppfylla loforð um stórsókn í heilbrigðismálum með því að færa fjármagnið frá þessum fagaðilum, sem hafa sinnt sínu starfi með sóma lengi, yfir í ríkisrekinn Landspítala eða aðrar slíkar stofnanir.

Það er heldur ekki verið að styrkja Landspítalann með því að færa þangað stefnulaust þetta fjármagn án þess að hafa einu sinni yfirsýn yfir nýtingu þess fjármagns sem þegar er fyrir. Það þarf líka að muna að á bak við fjármagnið er fólk sem hefur fengið þjónustu og þarf að fá þessa þjónustu áfram, a.m.k. í því formi sem hún hefur verið.

Í þriðja lagi eru áhöld um það hvort rétt sé að tala hérna um aðför að einkarekstri. Það er miklu eðlilegra ef svo fer sem horfir að tala um aðför að heilbrigðiskerfinu okkar. Ef sú verður raunin, ef þessi vegferð heldur áfram, er hún á ábyrgð stjórnarflokkanna og hún er á ábyrgð allra þriggja stjórnarflokkanna.