148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[16:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Stundum fer bara betur á því að berja sér minna á brjóst og sýna efndirnar frekar í verki. Þessi ríkisstjórn lagði af stað undir því fyrirheiti að efla Alþingi og bæta samstarfið innan þings. Ég held að það megi fullyrða að stjórnarandstaðan hafi rétt fram hönd í því máli og sagt: Við erum tilbúin að starfa með undir þeim formerkjum, við erum tilbúin að liðka fyrir starfinu inni á þingi. Ég held að við höfum ekki verið að þvælast mjög fyrir ríkisstjórninni í nokkru einasta máli, hvorki hér í þingsal né innan nefnda.

Nú er svo komið að þrátt fyrir að stjórnarandstaðan hafi borið uppi í raun og veru málflutning og umræðu hér í þinginu með framlagningu mála framan af þar sem lítið sem ekkert barst frá hæstv. ríkisstjórn og þrátt fyrir að þessar nefndir hafi haft meira en nægan tíma til þess að fjalla um þessi mál, kalla fyrir gesti, fá um þau umsagnir, þá á að stöðva þessi mál núna með þeim skilaboðum að þetta sé ekki rétti tíminn til að semja um afgreiðslu þeirra mála úr nefndunum, það megi gerast síðar þegar styttri tími er eftir af þinginu. Ég skil ekki (Forseti hringir.) slíka hundalógík. Á sama tíma er boðað að hér eigi (Forseti hringir.) að afgreiða tugi mála ríkisstjórnarinnar á hundavaði á einhverjum dögum í gegnum nefndirnar. Ég segi bara um þetta eins og (Forseti hringir.) ágæt útvarpsstöð sagði: Ég vil fá meiri músík, minna mas.