148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[16:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil eindregið beina því til forseta að skrúfa alls ekki fyrir sinn ágæta húmor alla jafna. Ég vil hins vegar ræða það sem við erum að ræða um og það er af hverju verið er að stoppa mál í nefndum og af hverju ekki. Við sjáum til dæmis mál frá Miðflokknum um staðarval sjúkrahúsa. Allir hafa mótað sér afstöðu. Hvað er verið að fela? Af hverju má ekki fá málið hingað inn í þingsal og einfaldlega greiða atkvæði um það, ræða það og greiða síðan atkvæði um það? Við hvað er ríkisstjórnin hrædd? Er hún hrædd við að þurfa að standa saman í máli þar sem eru öndverðar skoðanir innan stjórnar? Af hverju má Miðflokkurinn ekki einfaldlega fá þetta mál sem búið er að fara algjörlega í gegnum? Af hverju má Flokkur fólksins ekki fá mál sem honum eru kær á dagskrá? Og af hverju er ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna ekki að beita sér fyrir því að bæta kjör kvennastétta, að fá til umræðu þjóðarsátt um kjör kvennastétta? Af hverju er ekki ríkisstjórnin að semja við kvennastéttir eins og ljósmæður núna? Við hvað er ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hrædd? Af hverju lætur ríkisstjórn, undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðismenn stoppa sig í því að bæta kjör kvennastétta? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)