148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:19]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka frummælanda þessarar umræðu fyrir að taka málið á dagskrá. Oft er ágætt að hugsa aðeins út fyrir rammann þó að mér lítist ekki alls kostar á hugmyndina um borgaralaun. Það er kerfi sem felur í sér engan hvata til sjálfshjálpar, að mér finnst eftir að hafa aðeins skoðað málið. Þetta er samtryggingarkerfi sem tryggir hverjum borgara lágmarksinnkomu frá hinu opinbera, óháð öðrum tekjum. Það eru sem sagt engir hvatar í því. Borgaralaunum er ætlað að leysa núverandi velferðarkerfi af hólmi og koma í stað örorkubóta, atvinnuleysisbóta, ellilífeyris, námslána, fæðingarorlofs, vaxtabóta, barnabóta og ýmissa annarra bóta sem við notum til að halda undir samfélagið og þá sem minnst hafa.

Er hugmynd málshefjanda að leggja þau kerfi af og taka borgaralaunin upp í staðinn fyrir alla þá málaflokka sem ég taldi upp áðan? Mér finnst augljóst, af skammri skoðun, að þá kæmi minna í hlut hvers og eins og minnst til þeirra sem minnst hafa og meira til þeirra sem hafa það gott, eins og þingmanna. Þetta myndi væntanlega bætast ofan á launin okkar eins og allra annarra, ef ég skil hugmyndina rétt.

Borgaralaun gætu aukið misskiptinguna í samfélaginu sem ég held að við flest viljum ekki sjá. Finnar sem eru með tilraun með borgaralaun í gangi eru að hætta henni. Svisslendingar hafa hafnað borgaralaunum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að við þurfum að skoða þetta vel en það er sjálfsagt að líta út fyrir rammann þegar við ræðum framtíðina.