148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé góð ástæða fyrir því að fólk er bæði forvitið og spennt fyrir umræðu um borgaralaun. Ég held að það sé m.a. vegna þess að það velferðarkerfi sem við búum við, eins gott og það er um marga hluti, er ekki gallalaust. Það er of margt fólk sem þarf að reiða sig á kerfið sem býr við fátækt. Ég held að það sé hluti af því af hverju svo margir vilja ræða borgaralaun. Mér finnst það eðlilegt og skiljanlegt.

Það er hins vegar vandi að þegar orðið borgaralaun er nefnt þá er fólk oft að tala um ansi ólíka hluti og skilgreinir það hvað í borgaralaunum eigi að felast með ólíkum hætti. Mig langar að nefna hér tvö dæmi, annars vegar það sem nefnt er skilyrðislaus grunnframfærsla sem allir eiga að fá óháð öðrum tekjum, tilraun sem Finnar gera með því að borga til þeirra sem eru atvinnulausir. Þetta er alveg rosalega ólíkt. Þarna er himinn og haf á milli og flækir umræðuna því að maður veit aldrei alveg hvað átt er við. Svo eru alls konar aðrar útfærslur.

Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að jöfnuður næst ekki með því að allir fái jafnt frá ríkinu. Eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra er mjög dýrt að greiða öllum sömu upphæð frá ríkinu, en samfélög breytast. Íslenskt samfélag, öll samfélög munu breytast með tæknibreytingum og sjálfvirknivæðingu. Að sjálfsögðu þarf að bregðast við því og mögulega (Forseti hringir.) endurhugsa velferðarkerfið að einhverju leyti. Þess vegna fannst mér gott að heyra hæstv. forsætisráðherra nefna að þetta gæti verið eitthvað sem framtíðarnefnd ætti að huga að, því að hún er að fara að skoða við hverju við megum búast í framtíðinni.