148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

Borgaralaun.

[16:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég held að í þessari umræðu um borgaralaun sé ágætt að hafa í huga, til þess að afmarka umræðuna, að við leysum ekki gjaldþrota örorkulífeyriskerfi með borgaralaunum, það mun þurfa aðrar og veigameiri breytingar til þess sem mikilvægt er að ráðast í og það sem fyrst. Vonandi tekst okkur hér í þinginu, á grundvelli þeirrar vinnu sem er á vettvangi ríkisstjórnarinnar, að leysa úr þeim vanda sem það bótakerfi er í sem er mikill.

Ég hef hins vegar ekkert, eins og kannski mátti skilja á máli mínu í fyrri umræðu, ofboðslega miklar áhyggjur af því að okkur takist ekki að leysa úr þeim áskorunum sem munu fylgja tæknibyltingunni. Við vitum ekki hversu hraðar eða miklar breytingarnar verða. Við höfum stundum tilhneigingu til þess að ofmeta það, en svo geta þær líka hellst yfir okkur óviðbúið.

Það hvernig tekist verður á við styttingu vinnuviku, styttingu vinnutíma yfir daginn, launahækkanir samhliða þeirri miklu framleiðniaukningu sem spáð er — ég treysti verkalýðshreyfingunni til að takast á við þá áskorun með atvinnurekendum. Það er ágætt að hafa það í huga, það á alla vega við hér á landi, að samhliða tækniframförum og framleiðniaukningu í atvinnulífinu hefur verkalýðshreyfingin einmitt eflst en ekki veikst. Hún mun því vafalítið vera vel í stakk búin til að takast á við það hvernig tekist verður á við þetta, hversu mikið eigi að stytta vinnutíma, hversu mikið eigi að hækka laun o.s.frv.

Það sem ég held líka að vert sé að hafa í huga fyrir okkur sjálf er að þessar tæknibreytingar munu breyta viðhorfi okkar til atvinnu; þær munu breyta viðhorfi okkar til menntunar og í raun gera menntun að ævilöngu viðfangsefni. Við munum sífellt þurfa að vera að endurmennta okkur. Breytingar, ef þær ganga fram eins og spáð er, munu verða mjög hraðar og menntun verður okkar ævistarf. Við getum ekki búist við því að vinna á sama (Forseti hringir.) vinnustað ævilangt eins og kynslóðirnar á undan okkur vöndust. Við munum sífellt þurfa að tileinka okkur nýja þekkingu og nýja færni.