148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það fyrsta sem var gert hérna í upphafi þings var það sama og alltaf, stjórnarandstaðan var spurð: Hver eru forgangsmálin ykkar? Þetta setti dálítið tóninn fyrir nýju vinnubrögðin sem hljómuðu strax eins og gömlu vinnubrögðin. Þetta er að því er ég tel eitthvað sem við þurfum að endurskoða. Þetta er í rauninni eitthvað sem hefur greinilega þróast yfir í það sem verið er að lýsa núna, þetta nýja fyrirbrigði að það sé bara þegar málin eru tilbúin í nefnd, þá er búið að bæta við: Ja, nei, ekki fyrr en við erum alveg tilbúin til að hleypa þeim þaðan út.

Hérna erum við að glíma við ákveðið meirihlutaræði, sem er algjört. Við vitum það. Dagskrárvaldið er algjört þegar um meiri hluta er að ræða, fyrir utan eitt, það er málfrelsi þingmanna.

Einhvern veginn virðist umræðan í lok þinga alltaf snúast um að semja um það að þingmenn þegi. Ég tek undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni (Forseti hringir.) að það er kannski ekki alveg það sem við eigum að gera. Við eigum að ræða hlutina og við eigum að ræða hlutina hér en ekki endilega bara (Forseti hringir.) í nefndum þegar málin eru tilbúin þar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)