148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég kem reyndar upp til þess að þakka hv. þingmönnum Ólafi Þór Gunnarssyni og Vilhjálmi Árnasyni fyrir að staðfesta að það eru þeir sem halda þessu máli föstu í nefndinni. Þeir halda því fram að málið sé ekki útrætt þó að margoft sé búið að reyna að ræða það, en þeir koma alltaf í veg fyrir að það sé rætt í nefndinni. Þannig að við hljótum að spyrja hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson aftur: Við hvað er maðurinn hræddur varðandi það að afgreiða málið úr nefndinni? Við erum bara að tala um úr nefndinni. Við erum ekki einu sinni að tala um að málið komi á dagskrá, bara úr nefndinni. Við það er þingmaðurinn ósáttur, greinilega. Ég spyr: Af hverju?

Varðandi hins vegar þetta kosningamál vil ég benda hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé á að Miðflokkurinn hefur lagt fram tvær tillögur í því máli til þess að reyna að nálgast meiri hlutann. En á það hefur verið slegið. Meiri hlutinn hefur hafnað því máli. Þar held ég að hv. þingmaður hafi kannski farið fremstur í flokki við að reyna að ná einhvers konar lendingu í það. Það er ekki eins og menn hafi ekki lagt það á sig að reyna að klára málið með þeim hætti að ná samkomulagi um það. Það er ekki þannig. Hins vegar er það í velferðarnefnd þar sem hv. þingmenn Ólafur Þór Gunnarsson og Vilhjálmur Árnason beita sér af hörku gegn því að málið um staðarvalsgreiningu (Forseti hringir.) á nýju sjúkrahúsi komist inn í þingið, um staðarvalsgreiningu. Það er ekki eins og verið sé að samþykkja hér (Forseti hringir.) einhverjar stórauknar fjárveitingar.