148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[18:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram þegar maður skoðar þetta mál hefur Lífeyrissjóður bænda haft efasemdir um að hann geti staðið við núverandi skuldbindingar sínar ef lögin falla brott. Ég vildi bara árétta það hér að nefndin skoðaði þetta mjög vel og talaði við þá aðila sem hafa beðið um að talað yrði við. Það var beðið um að við myndum leita álits Fjármálaeftirlitsins sem og nefndin gerði. Ég myndi ekki greiða atkvæði með þessu máli nema ég væri algjörlega sannfærður um að óhætt væri að fella þessi lög úr gildi og að Lífeyrissjóði bænda verði áfram skylt, ekki einungis heimilt að mínu mati, heldur beinlínis skylt, að standa við þau réttindi sem sá ágæti lífeyrissjóður hafði áhyggjur af.

Við tilefnið vil ég einnig þakka nefndinni fyrir gott samstarf í málinu og sér í lagi óska hv. formanni nefndarinnar, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, til hamingju.