148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[18:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að minnast aðeins aftur á málið um kosningaaldurinn. Þau rök voru notuð í því máli að ekki væri hægt að afgreiða það í bullandi ágreiningi, sem kallað var svo. Þar var einmitt, með öllum greiddum atkvæðum nema einu, samþykkt að breyta kosningaaldri úr 18 niður í 16 ár. Það var nú allur bullandi ágreiningurinn. Nú erum við hér aftur á móti með atkvæðagreiðslu upp á 29 með og 23 á móti. Það er nú enn meiri ágreiningur ef þannig á að túlka það. Þar er stjórnin á móti stjórnarandstöðunni. Það, ef eitthvað er, ætti kannski að teljast bullandi ágreiningur. Með sömu rökum og voru notuð til að reyna að koma í veg fyrir að lækkun kosningaaldurs færi í gegn myndi maður ætla að fólk myndi stoppa og segja: Nei, ég ætla nú ekki að vera með hræsni hér. En það væri alveg saga til næsta bæjar, er það ekki?