148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[18:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Forseta er nokkur vandi á höndum þar sem það klúður sem við ræðum hérna helst er í nefndum þingsins. Vissulega er heildarumgjörðin á herðum forseta og mikilvægt að það gangi allt vel.

Varðandi orð forseta með að segja frá því hver afstaða manna er kemur fram í 19. gr. þingskapa að ekki megi vitna beint til orða alþingismanna eða gesta á fundum, ef ég las þetta rétt hér áðan.

Nú er okkur smávandi á höndum. Þegar við ræðum viðbrögð eða hvernig þingmenn bregðast við eða haga sér í nefndum, hvaða vettvangur er til að ræða það ef það er ekki hér? Störf þingsins gagnast voða lítið í þessu vegna þess að sá tími er svo stuttur og afmarkaður, en það kann að vera að forseti sé að beina því til okkar að beina orðum okkar á annan hátt til þingmanna, þ.e. að það getur verið að hv. þingmaður hafi verið (Forseti hringir.) á móti og staðið í vegi fyrir því. Það er kannski leiðin sem verður að fara. En ég tel að forseta sé nokkur vorkunn í þessu máli.