148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

564. mál
[20:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nefna varðandi þessar boðanir og þá breytingu sem lögð er til með 3. gr., svo að það sé áréttað og haft rétt, að hér er verið að breyta ákvæði í 28. gr. gildandi laga sem kveður á um umsækjanda sem ekki hefur sinnt boði Útlendingastofnunar tvisvar. Það er þannig í dag að umsækjandi hefur átt þess kost að synja mætingu í viðtal við Útlendingastofnun tvisvar, og stundum hefur reynst mjög erfitt að fá umsækjendur, sem hafa óskað eftir dvöl hér af mannúðarástæðum, til að mæta í viðtöl við Útlendingastofnun. Í mörgum tilvikum þarf ekkert að boða menn aftur í viðtal. Eitt viðtal á auðvitað að nægja. En það er slæmt ef þarf að boða menn tvisvar. Hér er lögð á það áhersla að menn séu boðaðir með sannanlegum hætti strax þannig að hægt sé að taka ákvörðun eftir eitt viðtal. Svo kunna menn að hafa lögmæt forföll en lögmæt forföll eru til dæmis ekki þau að menn komist ekki frá vinnu, umsækjendur um hæli hér. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál við afgreiðslu hælisumsókna.

Hvað varðar samráðið almennt er það rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að settur hefur verið á laggirnar samráðshópur allra þingflokka hér á þingi og þess ráðherra sem hér stendur. Ég vænti mikils af því starfi. Það var haldinn fundur fyrir ekki svo löngu. Ég ætla ekki að fullyrða að nefndarmenn hafi þekkt þetta frumvarp eða vitað að von væri á því. En ekki gafst tími, og var svo sem ekki tilefni eða tækifæri, til að leggja það fyrir þennan fyrsta fund nefndarinnar enda var frumvarpið þá (Forseti hringir.) nánast þegar komið fram. En ég hef lýst því yfir, og fjallaði um það á fundinum, að í framtíðinni verður ánægjulegt að fá tækifæri til að kynna fyrirhugaða lagasetningu fyrir nefndarmönnum.