148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegi forseti. Það sem fram kom áðan í máli hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar hlýtur að valda hæstv. forseta áhyggjum; að ráðuneytið leyfi sér að nálgast þingið á þennan hátt. Í fyrsta lagi að skila svari mörgum vikum, raunar mánuðum, eftir að ráðuneytinu bar að svara fyrirspurn hv. þingmanns. Í öðru lagi að þegar svarið berst loksins skuli menn ekki einu sinni svara spurningunni heldur bera fyrir sig tilvísun í persónuverndarlög.

Ég segi eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson: Ef sú er raunin, ef það er hin raunverulega ástæða fyrir því að svar berst ekki eftir allan þennan tíma, af hverju kom það ekki fram fyrr? Hvernig breyttist það á þessum langa tíma? Hvernig stendur á því að nú, mörgum mánuðum seinna, bera menn það fyrir sig að þeir geti ekki svarað spurningunni og vísa í persónuverndarlög?