148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er uppáhaldsmálefnið mitt í fundarstjórn forseta. Ég keyri þá forritið sem ég er með sem sýnir mér hver staðan er á fyrirspurnum. Á núverandi þingi er meðalsvartími 31 virkur dagur á þeim fyrirspurnum sem hefur verið svarað. Meðalsvartími fyrirspurna sem er ósvarað er 34 dagar. Það þýðir að ef öllum fyrirspurnum sem er ósvarað núna, sem eru 110 stykki, yrði svarað núna væri meðaltalið 34 dagar, það myndi hækka meðaltal allra svaraðra fyrirspurna dálítið.

Á 144. þingi var meðalsvartími 31 virkur dagur þannig að við erum verr stödd það sem komið er. Á 145. þingi voru þetta 38 dagar og 39 á 146. þingi. 147. þing taldist ekki alveg með, það var skrýtið þing, svartíminn var 21 dagur þá.

Við erum í þeirri aðstöðu að gert er ráð fyrir tveimur vikum fyrir svör að berast, en einhverra hluta vegna fáum við svör miklu seinna en við gerum ráð fyrir í þingsköpum. Það (Forseti hringir.) getur verið vandamál með fjármögnun (Forseti hringir.) eða eitthvað því um líkt eða það sé ekki starfsmannafjöldi til að sinna þessu eða eitthvert annað vandamál sem verður þá að tækla, lengja tímann eða auka fjármagnið.