148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

borgarlína.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er um þetta mál að segja að það er afskaplega skammt á veg komið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er í sjálfu sér ekki lengra komið í samskiptum þessara aðila en svo að óskað var eftir því bréflega af hálfu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að eiga samtal um þessi mál við ríkið. Vel hefur verið tekið í það af hálfu ríkisstjórnarinnar og í nýrri fjármálaáætlun til fimm ára sem liggur frammi er þess getið að þetta samtal muni eiga sér stað. En ef menn vilja kafa dýpra og spyrja sig hvort í fjármálaáætluninni sé að finna nú þegar fulla fjármögnun á þeim hluta sem nefnt hefur verið að falli í skaut ríkisins er nokkuð auðlesið út úr áætluninni að svo er ekki. Það breytir því ekki að ég geri ráð fyrir að þetta samtal verði formgert og verði þá að verulegu leyti á hendi samgönguráðherra að fylgja því eftir. En mér finnst og ég hef lýst því yfir áður að umræðan um borgarlínuna hafi í raun og veru farið langt fram úr öllu eðlilegu samhengi málsins. Það er einfaldlega statt þannig að bent hefur verið á leið sem menn segja að kosti 70 milljarða kr. Við erum að tala um fjárhæð sem hefur staðið í okkur í heilan áratug að skrapa saman til að endurreisa Landspítalann. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir.

Það er þess vegna dálítið einkennilegt að menn telji sig geta gengið til kosninga og kosið beinlínis um það þegar hvorugur aðilinn hefur sýnt fram á að hann hafi úr því að spila sem þarf (Forseti hringir.) til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.