148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

borgarlína.

[15:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka tiltölulega skýr svör hæstv. ráðherra. Það er ekki hægt að skilja mál hans öðruvísi en svo að ekki sé gert ráð fyrir að sett verði í fyrirsjáanlegri framtíð, segjum fimm ár, fjármagn í þessa framkvæmd, í framkvæmdina sjálfa, enda tilgangurinn með ríkisfjármálaáætlun til þetta langs tíma að gefa einhverja sæmilega vissu um það í hvað stefni. Það stefnir greinilega ekki í borgarlínu á því kjörtímabili sem hófst í gær í sveitarstjórninni. Hæstv. ráðherra lætur auðvitað fylgja sögunni að samtal muni eiga sér stað. Ekki ætla ég að setja út á það að menn spjalli saman. En það samtal mun þá væntanlega standa í a.m.k. fimm ár áður en farið verður að setja peninga í framkvæmdir við borgarlínu og veitir kannski ekkert af fimm árum til að velta þessum hlutum fyrir sér.