148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

bætt kjör hinna lægst launuðu.

[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn hefur sett stöðu þeirra sem minna mega sín á dagskrá með fjölmörgum áherslumálum. Má ég minna á að í samræmi við áður gefnar yfirlýsingar voru atvinnuleysisbætur, bætur til atvinnulausra, hækkaðar um 19% fyrr í þessum mánuði.

Varðandi skattkerfið, persónuafsláttinn og samspil hans við skattþrepin og þar með frítekjumörk í skattkerfinu, á ríkisstjórnin samráð við vinnumarkaðinn. Síðast fór fram fundur í síðustu viku þar sem ríkisstjórnin gerði grein fyrir því hvar við erum stödd í vinnu við að greina áhrif skattkerfisbreytinga sem fyrirhugaðar eru til þess að létta sérstaklega undir með lágtekjuhópum og lægri millitekjuhópunum. Til þess höfum við skapað okkur svigrúm í fjármálaáætluninni eins og þar má lesa í greinargerð. Við höfum tekið frá 10 milljarða á næstu árum, uppsafnað, til þess að teygja okkur betur til þessara hópa, að létta af þeim skattbyrðinni. Og, já, persónuafslátturinn er hluti af þeirri skoðun sem við erum að ráðast í, þ.e. hvort við getum útfært hann með öðrum hætti. En við erum hins vegar ekki í sjálfu sér að hugsa málið eins og hv. þingmaður leggur hér upp með að auka skattbyrðina á suma hópa til þess að létta henni af annars staðar. Við erum frekar að tala um hreina skattalækkun heilt yfir.

Ég held því að mikils sé að vænta í þessum efnum. Við höfum sett okkur það að koma með niðurstöðu úr þessari vinnu síðar á þessu ári. Það kallast vel á við (Forseti hringir.) fjármálaáætlunina sem er til umræðu í þinginu.