148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

bætt kjör hinna lægst launuðu.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel reyndar afar mikilvægt að atvinnuleysistryggingar séu með sómasamlegum hætti, bæturnar höfðu dregist aftur úr launa- og verðlagsþróun í landinu, og tel að það hafi verið framfaraskref að hækka þær að nýju enda krafa vinnumarkaðarins. Hitt er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á að fólk hafi störf til að sinna. Ekki bara að hér verði til störf heldur verðmæt störf. Störf sem standa undir hærri launagreiðslum en við höfum séð í gegnum tíðina þannig að launin standi líka undir skattgreiðslum. Það er nefnilega ekkert alveg sjálfgefið að þeir sem sinna lægst launuðu störfunum í landinu eigi að gera það fyrir laun sem ekki þola skattgreiðslur. Auðvitað ættu laun í landinu, líka í lægstu launahópunum, að standa undir skattgreiðslum. Fyrirkomulagið á vinnumarkaði hér á landi (Forseti hringir.) ætti ekki að ganga út frá því að þeir sem eru í atvinnustarfsemi eða eftir atvikum hið opinbera greiði svo lág laun að þau þoli enga skatta.