148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

stuðningur við borgarlínu.

[15:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, kom upp sú einkennilega staða að ákveðnum flokkum var einhverra hluta vegna í nöp við strætisvagna og gerðu borgarlínu að sérstökum skotspæni í kosningabaráttu sinni. Það er nokkuð sérkennilegt vegna þeirrar einföldu staðreyndar að þegar við horfum á umferðarspár fyrir höfuðborgarsvæðið og kostnað við samgöngubætur er efling almenningssamgangna, hvaða nafni sem þær nefnast, sennilega ábatasamasta fjárfesting okkar í gatnakerfinu.

Ríkisstjórnin hefur í stefnuyfirlýsingu sinni sagt, stutt og snaggaralega reyndar, að stutt verði við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Svo mörg voru þau orð hvað varðar það mikilvæga verkefni. Vissulega er það á upphafsreit, en horfa verður til þess að þegar tveir af þremur ríkisstjórnarflokkum gera borgarlínu að sérstökum skotspæni í sveitarstjórnarkosningum á höfuðborgarsvæðinu er eðlilegt að spurt sé hvort ríkisstjórnin meini eitthvað með stuðningi sínum við verkefnið.

Í ljósi þess hve mikilvægt er að greiða úr almenningssamgöngum og samgöngum heilt á litið á höfuðborgarsvæðinu — almenningssamgöngur eru vissulega aðeins hluti af heildarlausninni en mikilvægur hluti ásamt nauðsynlegum fjárfestingum í bættu flæði umferðar um höfuðborgarsvæðið, hvort sem horft er til strætisvagna eða einkabílsins — tel ég eðlilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er ríkisstjórninni alvara með stuðningi við borgarlínu eða er þetta eingöngu orðalag upp á punt í stefnuyfirlýsingu hennar? Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin þá styðja við borgarlínuverkefnið á komandi misserum?