148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Um miðjan þennan mánuð eða upp úr miðjum mánuði skilaði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt: Kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons hf.–Aðkoma og eftirlit stjórnvalda. Skýrslan var unnin að beiðni Alþingis, að frumkvæði þeirrar sem hér stendur, og nokkrir þingmenn skráðu sig á hana.

Ég geri ráð fyrir að fólk hér hafi að minnsta kosti skautað yfir hana en í skýrslunni eru alls sjö ábendingum beint til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Vinnueftirlits ríkisins. Ég ætla mér ekki að telja upp alla þá gagnrýni sem í skýrslunni er að finna en drep á nokkrum atriðum.

Kísilverksmiðjan var ekki fullbúin þegar framleiðsla hófst og starfaði aldrei í samræmi við mat á umhverfisáhrifum, starfsleyfi og markmið samnings um ívilnanir. Bæði lyktarmengun og neikvæð sjónræn áhrif voru önnur og meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Bygging verksmiðjunnar var ekki í samræmi við gildandi svæðisskipulag og við gerð ívilnunarsamnings stjórnvalda við Sameinað Sílikon var alfarið byggt á framlögðum gögnum og upplýsingum umsækjanda. Ekki lágu fyrir skýrar upplýsingar um eignarhald og stjórnendur.

Það er gríðarlega mikilvægt að við fylgjum þessari vinnu eftir hér á Alþingi, köfum ofan í af hverju þetta fór svona, af hverju þessi flýtir var á málinu, hvernig við drögum lærdóm af þessu. Ætlum við yfir höfuð að draga lærdóm af þessu? Hvert var hlutverk stjórnvalda í þessu? Er þáttur stjórnvalda hafinn yfir gagnrýni?

Það er einkum tvennt sem kemur upp í hugann, tvennt sem á að vera leiðarljós, hefði átt að vera leiðarljós en þarf að minnsta kosti að vera það í umræðunni hér eftir, en það er gegnsæi og það eru almannahagsmunir. Þetta tvennt virðist hafa týnst einhvers staðar í ferlinu. Ég hvet þingheim til að finna þessi mikilvægu leiðarljós aftur. Sömuleiðis mælist ég til þess við herra forseta að hann hlutist til um að þessi skýrsla og umræða um hana verði sett á dagskrá þingsins. Ég veit að það er stutt eftir, ég veit að það er margt í gangi, en fátt getur verið mikilvægara en gegnsæi í málum eins og þessum og almannahagsmunir. (Forseti hringir.) Þetta eru þjóðarhagsmunir í nútíð og framtíð.