148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Jöfnuður og traust.

[14:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að við hugum að því öllum stundum hvernig við tryggjum þeim sem verst eru settir í samfélaginu öryggi þegar kemur að afkomu, þegar kemur að menntakerfi, heilbrigðiskerfi og svo framvegis. Að mörgu leyti hefur okkur tekist vel upp.

Mér þykir oft skorta á í umræðu um jöfnuð, sér í lagi í þessum sal, að við ræðum það sem til okkar ábyrgðar heyrir en ekki það sem heyrir til ábyrgðar t.d. í kjarasamningum þegar kemur að lægstu launum, eða andhverfu jöfnuðarins, þ.e. auðævi eða auðlegð. Vissulega dregur efnað fólk úr jöfnuði, en það er ekki vandamál þegar kemur að jöfnuði. Það er gott þegar fólki vegnar vel, þegar það tekur áhættu t.d. í að stofna og starfrækja fyrirtæki og efnast á því. Að baki hverjum þeim sem tekst vel upp í því er stór hópur fólks sem ekki tókst vel upp í því og hafði lítið upp úr. Við eigum ekki að hallmæla frjálsu framtaki í þeim efnum, en við eigum að horfa til þess sem til okkar ábyrgðar heyrir. Það snýr fyrst og fremst að öryggisnetinu, almannatryggingunum og skattkerfinu, tekjudreifingunni gegnum skattkerfið. Við auglýsum enn eftir stefnu þessarar ríkisstjórnar í því.

Það er alveg ljóst að þeir flokkar sem að ríkisstjórninni standa eru í grundvallaratriðum ósammála um tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins, en ekki hvað síst þegar kemur að mikilvægustu þáttum tekjujöfnunar, mikilvægustu þáttum öryggisnetsins okkar, sem eru stoðkerfi eins og barnabætur, húsnæðisbætur og vaxtabætur. Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnartíð sinni í fjármálaráðuneytinu hefur vísvitandi látið það drabbast niður um árabil og ekki er að sjá nein merki hjá núverandi ríkisstjórn að það eigi að verða stefnubreyting þar á. Það er markvisst unnið að því að láta þessi (Forseti hringir.) stuðningskerfi, þessi mikilvægu stuðningskerfi lágtekjuhópanna, hverfa hægt og rólega með því að uppfæra þau ekki að verðlagi eins og við þurfum að gera og gæta að á hverjum tíma. (Forseti hringir.) Þetta er mikilvægasta verkefnið þegar kemur að umræðu um jöfnuð.