148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Jöfnuður og traust.

[14:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ójöfnuður á sér margar birtingarmyndir. Það hefur t.d. verið regla frá iðnvæðingunni að hver kynslóð hafi það betra en kynslóð foreldra hennar. Það er því miður að breytast. Eignastaða og kaupmáttur ungs fólks nú er lakari en kynslóðarinnar sem kom á undan. Það fólk er jafnvel svartsýnna á framtíðina. Á meðan kjör miðaldra og eldra fólks í dag er nokkuð betri en þegar þau voru um aldamótin eru kjör ungs fólks verri, tekjur lægri, kaupmáttur minni og eignastaða verri.

Í dag er nær ómögulegt fyrir ungt fólk að eignast þak yfir höfuðið án þess að vera með sterkt fjárhagslegt bakland. Á meðan fæst ungt fólk getur keypt sér húsnæði sjá þeir sem þegar eiga húsnæði eign sína vaxa með stjarnfræðilegum hraða. Ríkisstjórnin hefur ekki boðað nægilega skýrar aðgerðir til að taka á þessu. Úrræði síðustu ára hafa fyrst og fremst miðað að þeim sem mest þéna. Leiðréttingin fór að mestu leyti til þeirra sem mest höfðu og sem komið höfðu sér sæmilega fyrir, og séreignarsparnaðarleiðin nýttist þeim sem mestar hafa tekjurnar. Á meðan leiga hækkar og erfiðara reynist að safna fyrir útborgun er gerð atlaga að hefðbundnum jöfnunartækjum líkt og vaxtabótum og barnabótum. Það bitnar mest á ungu fólki. Afleiðingarnar væru kannski ekki jafn alvarlegar ef hér væri samkeppnishæfur leigumarkaður, en þar skilar ríkisstjórnin því miður líka auðu.

Herra forseti. Ísland á í harðri samkeppni við aðrar þjóðir um unga fólkið. Á því veltur velferð landsins næstu áratugina. Í dag getur það einfaldlega valið sér hvaða stað í heiminum sem er að vettvangi. Við verðum að búa því mikið betri skilyrði.

Ég spyr því hvort hæstv. forsætisráðherra hafi ekki líka áhyggjur af því að við verðum undir í samkeppni við aðrar þjóðir í baráttunni um unga fólkið.

Hvaða aðgerðir boðar ríkisstjórnin (Forseti hringir.) til að minnka ójöfnuð milli ungs fólks og eldra fólks, og milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekkert?