148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

jöfnuður og traust.

[14:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Á undanförnum árum hafa lægstu laun í landinu hækkað umtalsvert umfram meðallaun. Raunar höfum við náð þeim árangri að sennilega hafa lágmarkslaun í landinu sem hlutfall af meðallaunum aldrei verið jafn há. Það er vel út af fyrir sig en áhyggjuefni um leið að andhverfa þess birtist í því að menntun hefur aldrei gefið jafn lítið af sér í launum og nú er. Við erum að verða sú þjóð sem veitir hvað minnstan ávinning af menntun. Það er áhyggjuefni til lengri tíma litið. Við verðum að taka þetta inn í umræðuna um jöfnuð líka. Það verður að borga sig til lengri tíma litið fyrir heilbrigt samfélag að mennta sig.

Það má ekki gleymast í því samhengi að fólk sem velur að ganga lengri menntaveg fórnar að meðaltali fimm til átta árum af ævitekjum sínum í þá menntun og verður auðvitað að hafa einhvern ávinning af því. Það þarf að jafnaði 35% álag ofan á meðallaun verkamanns til að háskólamenntun borgi sig, til að skila sömu ævitekjum og viðkomandi verkamaður hefur. Það er ágætt að hafa það í huga. Þessi ávinningur er rétt liðlega 20% í dag. Það borgar sig ekki að mennta sig í íslensku samfélagi miðað við þann mælikvarða.

Það leiðir hugann að öðru sem er staða kvennastétta á Íslandi. Konur eru upp til hópa vel menntaður hópur, að meðaltali talsvert betur menntaður hópur en karlar en nýtur engan veginn ávinnings af háu menntastigi. Á það ekki hvað síst við um störf kennara og umönnunarstéttir. Þetta verðum við að hafa í huga í þessu samhengi líka.

Síðast en ekki síst snýst þetta ekki bara um innkomuna, það snýst um hvað kostar að búa í þessu samfélagi. Þar horfum við á vaxtakostnaðinn sem fylgir dýrri örmynt, íslensku krónunni, sveiflukenndri örmynt með þrefalt vaxtastig á við nágrannalönd okkar, og þegar kemur að matvælaverði í einum mest verndaða landbúnaði (Forseti hringir.) álfunnar með hvað hæst matvælaverð í samanburði við öll okkar nágrannalönd. Það er nefnilega hægt að bæta kjör almennings í landinu hér inni í þessum sal með því að endurskoða þessa þætti, vaxtakostnað almennings og matvælakostnað almennings.