148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er doðranturinn sem við erum að fara að taka á dagskrá. Það er svo sem gott og blessað að fá þetta loksins en það sem skiptir höfuðmáli, og hlýtur að skipta okkur öllu máli, er að afgreiðsla þingsins sé fagleg og vel gerð. Þetta er ekkert smáræðis mikilvægt plagg. Við getum ekki verið að afgreiða það á hundavaði á örfáum dögum. Þó að við höfum getað lesið og kynnt okkur málið fyrir fram og svoleiðis þá skipta umsagnir sérfræðinga okkur rosalega miklu máli. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að fara mjög vel og ítarlega yfir allar umsagnir á málinu frá íslenskum og erlendum aðilum og fleirum. Þær eru ekki komnar. Ekki er eftir því sem maður best sér, miðað við starfsáætlun þingsins, gefinn tími til hefðbundins umsagnarfrests á svona risastóru máli.

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega alvarlegt.