148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra hvað hv. þingmenn eru áfjáðir í að ræða persónuverndarmál. Ég ætla ekki að draga úr áhuga þeirra eða gera lítið úr áhuga þeirra á þeim efnum. En mér er þó til efs að nokkur þeirra sé áhugasamari en ég sjálf um að ræða þessi mál í þinginu og fagna því að fá tækifæri til þess. Ég vona að allur þingheimur geri það einnig.

Gífuryrðin sem hér eru alltaf sett fram, hvað varðar vinnulag og þess háttar, eiga ekki við nokkur rök að styðjast. Eins og hv. þingmenn vita sjálfir er hér um að ræða að innleiða gerð Evrópusambandsins, reglugerð Evrópusambandsins, inn í EES-samninginn. Það hefur ekki enn verið gert. Það er fyrirséð að það verður ekki gert fyrr en í júlí. Að leggja fram frumvarp til nýrra laga, sem byggja á þeirri gerð, er mjög nýstárlegt og er ekki í samræmi við það sem við ættum að gera. En enginn kallar meira eftir þessu en einmitt þeir hagsmunaaðilar sem hafa verið að veita margar umsagnir um þessi mál og gert athugasemdir í mjög víðtæku og umfangsmiklu samráðsferli sem hefur staðið yfir í marga mánuði.