148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hyggst nú samþykkja þessa tillögu um afbrigði vegna þess að það er nauðsynlegt að fara að ræða þetta stóra mál. Ég ætla hins vegar að mótmæla orðum hæstv. ráðherra um að menn hafi verið með gífuryrði í þessum ræðustól. Það er einfaldlega verið að mótmæla því að ráðherrann og ríkisstjórnin, meiri hlutinn á Alþingi, leggi fram svona stórt mál þegar þinglok eru að nálgast. Hvers konar vinnubrögð eru það? Það er vitanlega búið að liggja fyrir að þetta mál þurfi að koma inn í þingið. Hvaða slóðaskapur er þetta? Kannski er slóðaskapur gífuryrði, hæstv. forseti, ég veit það ekki. En ég hefði haldið að hæstv. ráðherra ætti að velta fyrir sér hvort ekki sé nær að líta í eigin barm og vanda betur vinnubrögðin í því ráðuneyti sem hún stýrir til að málin komist fyrr inn í þingið. Hér er um stór mál að ræða. Það mál sem á að ræða á eftir lagafrumvarpinu snýst um hvort við eigum að samþykkja að taka lagafrumvarpið yfirleitt til meðferðar í þinginu. Hvað ef við fellum það, fellum þingsályktunartillöguna, sem hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra á að flytja okkur, og ég vonast til að verði hér þegar kemur að því að ræða þetta mál? Hvað ef við fellum hana? Þá þarf ekkert lagafrumvarp.