148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir öll ummæli sem hér hafa fallið af hálfu hv. þingmanna um fulltrúalýðræði og hlutverk þingsins í stjórnskipun okkar. Ég lét þau orð falla í fyrri ræðu að hér hefðu menn viðhaft nokkur gífuryrði að mínu mati. Ég stend við það. Ég nefni hér sem dæmi:

Hér er því haldið fram að þingið sé að sjá í fyrsta sinn t.d. álitsgerð Stefáns Más Stefánssonar sem gaf álit á innleiðingarferlinu í öllu þessu. Þetta er hreinlega rangt eins og fram kemur í fylgiskjali III í máli 612 þar sem kemur sérstaklega fram og er farið mjög vel yfir þau álit sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur gefið árið 2016. Sérstaklega vil ég vekja athygli á áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá því í febrúar 2018 þar sem var fjallað um þessi mál, mjög ítarlega, og komst sú nefnd að sinni niðurstöðu eftir ítarlega umfjöllun á áliti Stefáns Más.

Þá vil (Forseti hringir.) ég einnig vekja athygli á því að í greinargerð með frumvarpinu til persónuverndarlaga er ítarleg umfjöllun um það samráð sem hefur verið haft og gert skilmerkilega grein fyrir því að hvaða leyti er tekið tillit til þeirra athugasemda sem bárust (Forseti hringir.) í samráðsferlinu.

Að lokum vil ég nefna það að menn tala um að hér sé verið að leggja (Forseti hringir.) fram skjal til stimplunar fyrir ríkisstjórnina. Þá vil ég benda á að þetta mál er (Forseti hringir.) hreinræktað mál frá Evrópusambandinu og kemur frá því og verður litlu breytt hér í þingsal (Forseti hringir.) vegna reglna sem Evrópusambandið setur Íslandi.