148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra greiðir nú ekki beinlínis fyrir málinu með því að afvegaleiða umræðuna. Í þingsályktunartillögunni stendur, með leyfi forseta:

„… taka skal reglugerðina sem slíka upp í landsrétt, en íslensk stjórnvöld hafa ekki val um form eða aðferð við innleiðingu slíkra gerða, svo sem með umritun. Engu síður er ráðgert í reglugerðinni að í allmörgum atriðum geti aðildarríki útfært einstök ákvæði og hafi svigrúm til að setja efnisreglur eða víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar. Í ljósi umfangs þeirra breytinga og sérreglna sem setja þarf á grundvelli reglugerðarinnar verður farin sú leið hér að semja frumvarp til nýrra heildarlaga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem leysi af hólmi lög nr. 77/2000. Samhliða því er stefnt að því að lögfesta í heild sinni ákvæði reglugerðarinnar eins og hún verður tekin upp í EES-samninginn.“

Hér er bara verið að gera talsverðar breytingar frá reglugerðinni eins og hún kemur fyrir og við þurfum að fjalla mjög ítarlega um það. Hæstv. dómsmálaráðherra er beðin að vera ögn auðmýkri þegar hún kemur hér upp og talar við þingmenn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)