148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[15:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Seint koma sumir en koma þó, svo ég hefji þetta andsvar mitt á jákvæðu nótunum. Svo vil ég biðja forseta að forláta mér að skauta dálítið á yfirborðinu enda hef ég ekki á þeim stutta sem liðinn er frá því að ég fékk þetta frumvarp í hendurnar náð að kynna mér það í þaula. En mig langar að spyrja ráðherrann út í tvennt eða þrennt:

Eitt kannski óttalegt smáatriði. Ég velti fyrir mér skýrleika réttarheimilda þegar við erum með lagafrumvarp þar sem orðið „reglugerðin“, með ákveðnum greini, kemur mjög oft fyrir, og svo er hægt að setja reglugerðir á grundvelli þeirra laga. Verður það ekki dálítill grautur og jafnvel erfitt fyrir almenning að lesa úr því? Þegar maður les íslensk lög reiknar maður með því að reglugerðin sem um ræðir sé íslensk reglugerð byggð á íslenskum lögum.

Varðandi evrópsku reglugerðina langar mig að spyrja, vegna þess að í 5. gr. frumvarpsins stendur að ákvæði reglugerðarinnar gangi framar ákvæðum laga þessara: Hvernig lítur það út varðandi hugmyndir um framsal ríkisvalds? Hvernig horfir það við ef reglugerð ESB/2016/679 er breytt úti í Brussel og það hefur bein áhrif á reglugerðina, sem samkvæmt 5. gr. þessa frumvarps hefur bein réttaráhrif á Íslandi? Erum við ekki komin á nokkuð hálan ís þar?

Að lokum langar mig að spyrja út í lítinn hugtaksstúf. Þar sem ég er heimspekimenntaður langar mig að fá að vita hvað þessi heimspekilega sannfæring er sem talað er um (Forseti hringir.) í orðskýringum í 3. gr. Þarna hefði ég frekar viljað sjá orð eins og „lífsskoðun“ miðað við samhengið.