148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmanni finnst málið koma seint inn. Ég hef náttúrlega lýst því í framsögu minni að ég tel það jafnvel of snemma fram komið. Rétt er að skoða orðalag frumvarpsins og reglugerðina. Reglugerðin er sérstaklega skilgreind í 3. gr. frumvarpsins þannig að hún hefur sérstaka lögfræðilega þýðingu í frumvarpinu, þ.e. með tilvísun til reglugerðarinnar er verið að vísa til hinnar evrópsku persónuverndarreglugerðar sem skammstöfuð hefur verið GDPR upp á enska tungu, þannig að það á að liggja skýrt fyrir.

Hv. þingmaður velti líka fyrir sér því sem fram kemur í 5. gr. Vísað er til þess að ef einhver misbrestur er á texta þessa frumvarps, þ.e. lagatextans, er tekið fram að frumvarpið feli í sér annars vegar lagatexta og hins vegar sé fylgiskjal með því, reglugerðin sjálf, þannig að reglugerðin sjálf er hluti af frumvarpinu. Með 5. gr. er verið að árétta að beri þessum textum ekki saman gildi reglugerðin. Það er alveg óhjákvæmilegt samkvæmt skuldbindingum okkar í EES-samstarfinu að þegar við innleiðum reglugerðir Evrópusambandsins þá gilda þær. Það er ekkert nýtt.

Við erum ekki að gera það í fyrsta sinn að taka upp reglugerð Evrópusambandsins inn í EES-réttinn. Það er oft gert. Þá gildir sá texti eins og hann kemur af kúnni, ef mætti orða það þannig, og þá er ekkert svigrúm til neinnar útfærslu á íslenskum lagatexta. En hér gafst tækifæri til þess. Þess vegna er þessi texti settur.

Það er alveg ljóst að það er reglugerðin sjálf sem hefur lagagildi með þessu á Íslandi.