148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gera það sem hæstv. ráðherra þyrfti kannski að gera, þ.e. að fara aftur í tímann. Ég sagði ekki að þetta væri of seint fram komið, það voru orð ráðherrans, en ég geri þau glaður að mínum af því að þegar vika er eftir af þinginu er ansi naumt um tímann.

Ráðherrann komst ekki í að svara síðasta hluta spurningar minnar áðan varðandi, mér liggur við að segja orðskrípið „heimspekilega sannfæringu“. Eitthvað hef ég heyrt út undan mér að hér haldi embættismenn í þá túlkun að við séum bundin af einhverri þýðingu. Í því skyni vil ég benda ráðherranum á nokkur af opinberum tungumálum Evrópusambandsins. Mögulega byggir íslenska þýðingin á enskunni þar sem „trúarbrögð eða heimspekilega sannfæring“ á íslensku eru, með leyfi forseta, „religious or philosophical beliefs“ og þá er kannski eitthvert vit í þessu orðskrípi. Ef við skoðum þýsku útgáfuna er talað um „religiöse oder weltanschauliche Überzeugungen“. „Weltanschauliche“ er bara heimssýn, það er lífsskoðun. Á frönsku er það „les convictions religieuses ou philosophiques“. Þarna er því steypt saman, þarna sést að þetta eru hliðstæður, þetta eru skoðanir á trúarsviðinu og varðandi aðrar lífsskoðanir eins og við erum með í lögum í dag.

Mér sýnist á þessu að það séu helst við Norðurlandaþjóðirnar sem erum að fálma í þessum nýju hugtökum sem passa ekki alveg inn í lagaumhverfið eins og það er núna. Norðmenn eru t.d. með „religion eller filosofisk overbevisning“ í takt við okkar. Ég ítreka því spurninguna til ráðherrans um hvort ekki færi betur á því að tala um lífsskoðun eins og við gerum á öðrum stöðum í lagasafninu þar sem við erum að fjalla um sama hlutinn.