148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að það eru ákveðin vonbrigði með þetta svar, sérstaklega ef horft er til þeirra sjónarmiða sem flokkur hæstv. ráðherra hefur gjarnan uppi þegar kemur að atvinnulífinu. Hér væri þá kannski full ástæða til þess, úr því að reglugerðin fjallar ekkert um vinnuskjöl einkaaðila, að leyfa þessum sömu einkaaðilum að njóta vafans í þeim efnum. Ef stjórnvöld telja sig hafa heimild til þess að undanskilja opinbera aðila sérstaklega þegar kemur að meðferð vinnuskjala eða aðgengi eða kröfu almennings um aðgengi að vinnuskjölum hjá hinu opinbera, líkt og er í dag í upplýsingalögum, hví í ósköpunum á að leggja þá kvöð á einkaaðila að þeir skuli halda utan um og veita fullan aðgang að slíkum vinnuskjölum sem hinu opinbera er ekki skylt að gera, hvorki í núverandi upplýsingalöggjöf hér á landi né gert ráð fyrir að svo verði áfram?

Þetta veldur mér nokkrum vonbrigðum af því að þarna virðist í raun og veru sem farið sé talsvert mýkri höndum um hið opinbera þegar kemur að persónuverndarlöggjöfinni en einkaaðila sem þó eru margir hverjir eru í mjög erfiðri stöðu kostnaðarlega séð til þess að takast á við og halda utan um og varðveita slík skjöl. Þess vegna veldur svar hæstv. ráðherra mér nokkrum vonbrigðum.

Ég hefði líka áhuga á því að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra þegar kemur að sektarákvæðum og refsiheimildum. Ráðherra var nú ekki hér þegar ég spurði að því í síðari spurningu. Það er gagnrýnt að þar sé um umtalsverða hækkun að ræða á núverandi fjárhæðum án þess að reglugerðin kveði nokkuð þar á um. Þar virðist hæstv. ráðherra einfaldlega vera að ákveða upp á sitt einsdæmi að tvöfalda sektarheimildir á atvinnulíf og sveitarfélög, sem líka hafa gagnrýnt það sama, og um sé að ræða algjörlega (Forseti hringir.) fordæmalausar sektarheimildir af hálfu opinberrar stofnunar og enginn rökstuðningur fyrir því, hvorki með vísan til reglugerðarinnar hinnar evrópsku (Forseti hringir.) né annarra fordæma hér á landi.