148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fjármálaáætlun, á bls. 228, stendur, með leyfi forseta:

„Önnur áherslumál [innan þessa málefnasviðs]: Persónuvernd: Innleiðing nýrra persónuverndarlaga gangi vel fyrir sig.“

Þetta eru önnur áherslumál því að það er ekkert að finna um þetta í kaflanum „Markmið, mælikvarðar og aðgerðir“, sem er í raun það sem stjórnvöld ættu að gera, nema fræðsla vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar og aðgerðin er sem sagt fræðsla vegna nýrrar Evrópulöggjafar á sviði persónuverndar þar sem upplýst er um réttindi einstaklinga og skyldur fyrirtækja og stofnana samkvæmt hinu nýja regluverki og tímaáætlun 2018–2020.

Svo er fræðsla vegna hlutverks persónuverndarfulltrúa sem öllum stofnunum og mörgum fyrirtækjum er skylt að tilnefna. Það er líka tímaáætlun til 2020. Það var í síðustu viku sem við vorum að renna út á ákveðnum fresti og um mitt þetta ár, seinna á þessu ári, sem við rennum út á öðrum fresti miðað við ræðu þingmanns hér áðan.

Þetta er, held ég, vandamálið í hnotskurn sem við erum að reyna að benda á. Ekki nóg með það. Það er verið að varpa á okkur öðrum risadoðranti hér. Við eigum eftir að klára umræðu um fjármálaáætlun, seinni umræðu, það er ekkert smáræði, þetta spilar óhjákvæmilega saman, og þessi fyrirsjáanleiki, sem okkur þingmönnum er sagt að við hefðum átt að nýta okkur, er ekki nýttur í fjármálaáætlunina sjálfa.

Ég á dálítið erfitt með mig í þessu máli og leita eftir umræðu um það nú í 1. umr. Eins og kom fram fengum við frumvarpið í gær. Þetta er í raun bara fyrsti yfirlestur í fyrsta tímanum, eins og maður gerði kannski í skóla.